143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Með leyfi forseta:

„Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.“

Þetta er texti sem stjórnarflokkarnir senda okkur þingmönnum hér inni í sal. Þetta er texti sem forseti lýðveldisins hefur heimilað að verði lagður fram og forseti Alþingis hefur heimilað að fari á dagskrá. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann taki málið af dagskrá. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að helst láti hann þetta mál deyja, en vilji hann leggja það fram að hann að minnsta kosti í fyrstu atrennu breyti greinargerð og biðjist afsökunar.