143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að benda á að fyrir utan það að vera móðgun, fyrir utan þær aðstæður sem hv. þingmenn hér eru ægilega reiðir yfir, þá er það bara mjög kjánalegur rökstuðningur að ætla sér að túlka skoðun einhvers annars.

Virðulegi forseti. Hvað ef ég segði bara: Hæstv. forsætisráðherra, hann meinti nú eitthvað allt annað en hann sagði. Mundi einhver taka mark á því? Ég vona ekki, ég vona að enginn tæki mark á því. Ég mundi ætlast til þess að menn yrðu móðgaðir, að mér yrði fljótt sýnt fram á að ég færi með rangt mál, en það er þá komið fram hér að þetta er alveg fáránlegt.

Ég tek undir þær hugmyndir sem hér hafa komið fram um að fresta þessum fundi þar til hæstv. utanríkisráðherra hefur séð sér fært að mæta að minnsta kosti inn í þingsalinn, jafnvel bara til þess að sýna þinginu smávirðingu. Bara hugmynd, virðulegi forseti.