143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum megi vera ljóst hér í þessum þingsal að þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra um að draga umsóknina til baka hefur valdið mjög miklum deilum, ekki aðeins meðal þingmanna á þingfundi heldur úti í samfélaginu. Hér flykkjast menn dag eftir dag svo þúsundum skiptir til að mótmæla þingsályktunartillögunni. Við höfum bæði rætt innihald tillögunnar en einnig það hneyksli sem greinargerðin augljóslega er.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að þessi þingsályktunartillaga verði tekin af dagskrá, í það minnsta til að fara aðeins yfir þetta og kalla stjórnarliðið saman til að athuga hvort þau séu í raun tilbúin til að styðja þessa tillögu alla leið.