143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég geri ráð fyrir að í báðum stjórnarflokkunum hafi átt sér stað einhver umræða um þessar ályktanir þegar þær voru samþykktar. Í hvorugri þeirra er fjallað um að slíta viðræðum eða draga umsóknina til baka, í hvorugri þeirra. Hér er því verið að taka ákvörðun í skyndi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum með því að draga umsóknina til baka. Það hlýtur þá að vera byggt á nýjum stórkostlegum upplýsingum í þessari skýrslu sem kalla á þessi neyðarviðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar, vegna þess að ekki eru önnur mál að koma jafn hratt hingað inn. Blekið var ekki þornað á þessari skýrslu þegar tillagan var komin fram og þar af leiðandi hljótum við að ræða þetta í einhverju samhengi.

Því spyr ég hv. þingmann, sem stendur að þeirri tillögu líka með rökstuðningi og vísan í þessa skýrslu: Hvað er það í henni af nýjum upplýsingum sem kallar á að gripið sé í neyðarhemil og viðræðunum (Forseti hringir.) slitið í raun þvert á stjórnarsáttmálann og líka landsfundarsamþykktir beggja flokka sem ganga hvergi nærri svo langt?