143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrirspurnina. Ég veit ekki hvort ég á að fara út í fótboltalíkingamálið. Ég þyrfti örugglega lengri tíma ef ég byrjaði á því en auðvitað er samstaða mikilvæg í öllum málum.

Ég hef fullan skilning á því að okkur greinir á um hvar hagsmunum íslensku þjóðarinnar er best borgið að sinni, hvort það er með inngöngu í Evrópusambandið eða ekki og þar við situr. Ég hef fullan skilning á skoðun hv. þingmanns á þessu máli en ég held að við verðum að taka seinni hlutann af andsvarinu í það að skilgreina samstöðuna. Hv. þingmaður vitnaði í ræðu hæstv. forsætisráðherra, áramótaræðu, ég náði ekki alveg samhenginu þar á milli.