143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst í ræðustólinn annars vegar til að spyrja einnar spurningar en hins vegar eftir þessa ræðu til að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu, sennilega þá bestu sem haldin hefur verið á þinginu um þetta þingmál. Þetta er sennilega gott dæmi um hvað umræðan gæti verið þroskuð og góð ef hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hefðu ekki flumbrast fram með þá tillögu sem blandast inn í umræðuna um þessa mikilvægu og góðu skýrslu og setur hér allt í uppnám. Það er gott að hæstv. utanríkisráðherra hefur hlustað á þessa ræðu og aðrir andstæðingar þessa máls. Hér voru settir hlutir fram á sanngjarnan hátt með og á móti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þá greinargerð sem fylgir með tillögunni sem hefur verið dreift og er (Forseti hringir.) aðaldeiluefnið á Alþingi. Hv. þingmaður hefur gegnt stöðu fyrsta varaforseta í þrjú ár ef ég man rétt og ég spyr: Er hún sátt við þá greinargerð sem hér kemur fram sem er (Forseti hringir.) beinlínis sleggjudómar um þá þingmenn sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni í júlí 2009?