143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Kristján L. Möller sé að vitna í þetta sem rætt hefur verið um í dag: Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið meirihlutavilji fyrir aðildarumsókn o.s.frv.

Nei, virðulegur forseti, ég er ekki sátt við þetta vegna þess að ég er ein þeirra sem greiddu atkvæði 16. júlí 2009 með þessum aðildarviðræðum. Ég gerði það af heiðarleika og hreinskilni og samkvæmt minni bestu samvisku. Mér finnst jafn vegið að mér og heiðarleika mínum og heilindum og þeirra stjórnarþingmanna sem þá sátu.