143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aftur verð ég að þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilin og heiðarleg svör. Þannig á umræðan að vera í æðstu lýðræðisstofnun þessa lands, hér í þessum ræðustól í þessum sal.

Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum þingmannsins og því hvernig hún skýrir frá afstöðu sinni til málsins og svo því mikla deiluefni sem hefur rofið friðinn á hinu háa Alþingi síðustu dagana.

Hv. þingmaður ræddi áðan um að þannig væri lýðræðið að það ætti ekki að taka frá þjóðinni réttinn til að segja skoðun sína á þessu máli. Því er ég algjörlega sammála um leið og ég get skrifað upp á hvert einasta orð sem hv. þingmaður sagði hér, líka með fyrirvarana, vegna þess að þeir eru svipaðir og fyrirvarar mínir. Ég sagði líka já og tilheyri flokki sem er heils hugar bak við þessa aðildarumsókn. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann: Ef þessi tillaga kemur til atkvæða eins og hún er hér, (Forseti hringir.) mun þingmaðurinn þá styðja þingsályktunartillögu um að hætta aðildarviðræðunum?