143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni tillöguna og held að hún gæti verið skynsamlegur grunnur ef við getum náð saman um að vinna þetta mál af aðeins meiri yfirvegun en forusta ríkisstjórnarflokkanna hefur sýnt í framsetningu tillögu um afturköllun.

Ég vildi fyrir minn hatt líka segja að það hafa margar hugmyndir komið fram um hvernig hægt er að mæta áhyggjum forustu núverandi stjórnarflokka af því að þurfa kannski að fara að framfylgja þjóðarvilja sem ríkisstjórninni þykir óþægilegt að horfast í augu við. Það má finna leiðir til þess. Það má ræða tímasetningar á atkvæðagreiðslum, það má ræða aðferðafræði og umbúnað um málin sem heldur leiðum opnum án þess að ákvarðanir um slit séu teknar. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að (Forseti hringir.) við eigum að reyna að finna leiðir sem gera okkur kleift að valda ekki varanlegu tjóni.