143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra ákvað að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera skýrslu um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið ákváðu aðilar vinnumarkaðarins að fela Alþjóðastofnun Háskóla Íslands að gera slíkt hið sama.

Miðað við það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spyr um þá held ég að þegar sú skýrsla verður komin fram hafi menn fengið frá Hagfræðistofnun og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands tvær skýrslur. Þá væri hægt að ræða þær saman, skoða hvað er sameiginlegt í þeim og hvað ólíkt. Þess vegna mætti efna til einhvers konar þjóðfundar um Evrópumál fyrir fólkið í landinu þannig að við heyrðum ekki bara í skoðanakönnunum og mótmælum eða undirskriftum, eða hvað svo sem það er, heldur fengi fólk tækifæri til að tjá sig með einum eða öðrum hætti um það sem væri á borðinu.