143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra viðleitnina að vilja gera eitthvað í þessu máli, en þetta var nú býsna snautlegt. Hér hafa verið miklar umræður um ummæli sem hann ber ábyrgð á, sem hann hefði verið víttur fyrir ef hann hefði sagt þau hér úr ræðustól. Þess vegna er ekki nóg að hæstv. utanríkisráðherra komi hér upp og komi með einhverja útúrsnúninga og vitni í eitthvert eitt andsvar.

Við höfum rætt um þetta mál hér í sólarhring, um að þarna séu bornar alvarlegar sakir á ákveðið fólk af hálfu hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefði verið víttur ef hann hefði sagt þetta úr ræðustól. Honum ber því að koma hér og biðjast afsökunar á því skilyrðislaust að hafa látið sér detta þetta í hug og biðja sérstaklega þá þingmenn afsökunar sem hann ber þessar sakir á, alla sem greiddu atkvæði með aðildarumsókninni 16. júlí 2009.