143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það var ekki mikil frægðarför hjá hæstv. utanríkisráðherra hér inn í þingsalinn áðan þegar hann kom til þess að bera klæði á vopnin í þessu mikla deilumáli og endaði þá för sína með því að saka hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um að ljúga að þinginu.

Mér hefði nú fundist það gefa fullt tilefni þess að forseti mundi víta þingmanninn og hæstv. ráðherra fyrir þessi ummæli. Ég held að því miður sýni þessi ummæli svart á hvítu þá tilfinningu sem býr að baki þeirri málsmeðferð sem við erum að verða vitni að hér. Þetta mál er borið fram af reiði og hefnd einni saman. Það eru frumhvatirnar að þeirri atburðarás og þeim hráskinnaleik sem við erum að verða vitni að hér í kvöld og þessa dagana.