143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og þegar talað er um bætt vinnubrögð eða sátt þá var það ekki sáttarhönd sem hæstv. utanríkisráðherra rétti hér fram áðan. Það var algjör hálfkæringur hjá hæstv. ráðherra þegar hann vitnaði í andsvar annars þingmanns í stað þess að játa bara að hann hefði gert mistök og sýna svolitla auðmýkt og draga orð sín til baka.

Virðulegi forseti. Í 93. gr. þingskapalaga segir, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.“

Virðulegi forseti. Voru það ekki brigslyrði sem hér voru kölluð fram af hæstv. ráðherra áðan? Ber ekki að víta hann samkvæmt þessari grein?