143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég botna ekkert í þessari fundarstjórn og ég botna ekkert í stjórn þessa þings yfir höfuð. Hér er verið að setja algjörlega ný viðmið þar sem ríkisstjórn má koma með slúður í greinargerðum til að rökstyðja mál sitt án þess að það hafi neinar afleiðingar og síðan má ráðherra sitja hér á ráðherrabekknum og kalla fram í, eins og hann sagði orðrétt: „Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.“ Það sagði hæstv. ráðherra við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon.

Virðulegi forseti. Er forseti þingsins stoltur af þessum nýju viðmiðum sem verið er að setja undir hans stjórn? Ég spyr vegna þess að ef þessi framkoma hér í kvöld verður látin óvítt, ja, þá eru allar reglur farnar út í veður og vind. (Forseti hringir.) Ég lít svo á að engum þingmanni beri að fylgja þessum þingsköpum sem fyrir okkur eru lögð ef þetta má. (Forseti hringir.) Ég vil fá svör við því hvort forseti ætli ekki að víta hæstv. ráðherra fyrir þessi ummæli, ef ekki þá setur hæstv. forseti þingið niður svo um munar um langa framtíð (Forseti hringir.) og það er á hans ábyrgð.