143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Varðandi skilgreininguna á brigslyrðum held ég að það sé mjög mikilvægt að við pössum okkur að skapa ekki fordæmi þegar þingmenn eru víttir varðandi brigslyrði. Það segir í 93. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir.“

Ég fór og talaði við Helga Bernódusson …

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmann að vitna ekki í einkasamtöl.)

Allt í lagi. Ég fann í orðabók skilgreiningu á orðinu „brigslyrði“. Brigslyrði hafa að gera með aðdróttanir og aðdróttanir eru varðar af sannleikanum. Við skulum því passa okkur á því, ef víta á þingmenn, að sannleikurinn verður þó alltaf að vera vörn þingmanna. Þingmenn verða að fá að geta kallað og talað úr ræðustól (Forseti hringir.) um sannleikann. Sama hvað það er í þessu máli, við verðum að passa okkur upp á framtíðina. (Forseti hringir.)Sannleikurinn verður að vera vörn.