143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Varðandi það sem er ómögulegt þá virðist ekki vera ómögulegt að vera á móti inngöngu í Evrópusambandið annars vegar og hins vegar vera á sama tíma með þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður. Það er nákvæmlega það sem þjóðin gerir. Þjóðin er í dag á móti inngöngu í Evrópusambandið en samt með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður þannig að það virðist ekki vera ómögulegt fyrir þjóðina.

Það sem er aftur á móti ómögulegt fyrir þjóðina er að kalla milliliðalaust eftir þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ómögulegt fyrir þjóðina. Þjóðin getur ekki kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu milliliðalaust. Það getur hún gert í Sviss, það getur hún gert í mörgum öðrum ríkjum. Það hefði hún getað gert ef við hefðum fengið nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs. Það fengum við ekki, það fékk þjóðin ekki og þjóðinni er ómögulegt að kalla milliliðalaust eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sem er aftur á móti mögulegt og líklegt er að í framtíðinni, við erum kannski að tala um innan tíu ára, fái þjóðin þessar heimildir. Tímarnir eru breyttir. Fólk í dag innbyrðir meira og meira af fréttum í gegnum samfélagsnet, í gegnum þátttökumiðil, í gegnum internetið og þá situr fólk ekki og tekur við eins og það gerði forðum; það horfði á sjónvarpið, sem er kaldur miðill sem tekur yfir öll skynfærin og matar mann. Það er gamla módelið. Fólk sem lifði í þeim heimi gat ekki tekið þátt nema þá á kaffistofunni daginn eftir. Það fólk er miklu líklega til að sitja á skoðunum sínum og hjá því fólki vex ekki jafn mikil réttlætishugsun. Fólki finnst bara rétt að það fái að taka þátt í samfélagi sínu, að það fái að segja skoðun sína og að það sé hlustað á hana, að það fái að taka þátt í ákvarðanatökunni.

Þessi undiralda, tæknibreytingin, sem internetið er, þar erum við öll núna, við erum þátttakendur í hinni samfélagslegu umræðu. Okkur finnst rétt að við komum að ákvarðanatöku. Við erum ekki að fara að snúa þeirri þróun til baka, þetta er framtíðin og þetta mun bara aukast. Og sífellt fleira fólk mun setja þessi gildi framar í forgangsröðuninni þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur eða frumkvæði þjóðarinnar er það sem koma skal.

Þeir flokkar sem eru fyrstir til að átta sig á því og bjóða upp á það munu fá kjósendur í framtíðinni, þeir munu fá framtíðarkjósendurna.

Það er líka möguleiki núna, með þingmenn sem milliliði, að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður og spyrja þjóðina: Eigum við að halda aðildarviðræðum áfram? Það er þingsályktunartillaga sem Píratar hafa lagt fram með Bjartri framtíð og Samfylkingunni. Ég hef rétt í þessu lagt fram dagskrártillögu til þingforseta um að það verði fyrsta mál á dagskrá þingsins á morgun á eftir liðnum um störf þingsins. Við förum bara í það að ræða það, klárum það fyrir föstudaginn, sem er síðasti séns. Ef það er ekki klárað fyrir föstudaginn þá uppfyllir það ekki lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar er kveðið á um að það þurfi að líða þrír mánuðir frá því að þingið samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu þangað til hún fer fram og sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir þrjá mánuði núna á föstudaginn. Þetta er síðasti séns.

Þetta er það sem er mögulegt í dag. Þingforseti hefur valdið. Hann hefur fengið beiðni um að setja þetta á dagskrá sem fyrsta mál og við vonum að hann verði við því. Þetta er mögulegt.