143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ómöguleikinn er til staðar hérna vegna þess að þeir sem stjórna, þeir sem halda um stjórnartaumana í dag, halda um tauma meiri hluta þingsins, eru enn þá fastir í fulltrúalýðræðismódelinu, í því módeli sem var sett á laggirnar til að sparka öðru gerræðislegra módeli á sínum tíma þar sem páfar og prinsar réðu öllu saman. Þegar menn gáfust upp á því módeli og höfðu rökstutt það og rökrætt í einhverjar aldir að bæta þyrfti fyrirkomulagið og breyta því og koma meira valdi til fólksins, sem var náttúrlega almennt ekki menntað og illa upplýst og upplýsingar ferðuðust hraðast með bréfdúfum, var fulltrúalýðræðisfyrirkomulag besta fyrirkomulagið sem var í boði.

Nú er gerbreyttur tími með internetinu, samfélagsmiðlunum og upplýstu samfélagi þar sem fólk er virt og tekur þátt í samfélagsumræðu. Með almennri menntun og allri tækninni sem býður upp á rafrænar kosningar o.s.frv. er annað í boði. Fólk mun ekki lengur sætta sig við annað en að taka meiri beinan þátt, hafa frumkvæði að því að taka beinan þátt í ákvarðanatöku ríkisins. Þessi ómöguleiki endurspeglar skilningsleysi ráðamanna í dag, þeim finnst að þeir eigi að vera kjörnir og ráða svo öllu saman og þannig sé það bara. En þetta er ekki það sem þjóðinni finnst í dag og þeir sem átta sig síðast á því verða af atkvæðum framtíðarinnar.

Ég svara seinni spurningunni í síðara andsvari.