143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og spyrja hann aðeins út í það sem hann tekur réttilega inn í þessa umræðu, sem er sú sorglega staðreynd að okkur hefur ekki enn auðnast að koma inn í stjórnarskrá ákvæðum sem færa til þjóðarinnar sjálfrar rétt til að krefjast þess að stór og mikilvæg mál fari í þjóðaratkvæði. Það er dapurlegt.

Staðan núna í þessu máli færir okkur heim sanninn um það hvers konar stórslys það er að það hafi ekki tekist. Á því bera að sjálfsögðu þau öfl ábyrgð sem hafa komið ítrekað í veg fyrir tilraunir til stjórnarskrárbreytinga, meðal annars og ekki síst um þetta. En þannig hefur það verið fyrir þrennar alþingiskosningar að þegar ljóst varð að ekki yrði um heildarendurskoðun stjórnarskrár að ræða voru gerðar tilraunir til þess 2007, 2009 og 2013 að taka þá nokkur einfaldari grundvallarmál inn í stjórnarskrá og þar á meðal þetta um beina lýðræðið.

Nú höfum við beina vísbendingu frá þjóðinni, þeim hluta sem tók þátt í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að þetta ákvæði nýtur mikils stuðnings, gríðarlegs meirihlutastuðnings með þjóðinni, hún vill fá þennan rétt.

Spurningin er kannski: Hvað er til ráða? Hvernig eigum við að ná þessu máli fram? Einnig væri fróðlegt að heyra sjónarmið hv. þingmanns, sem hefur verið að kafa ofan í þessi mál, um hvað væri ásættanleg þátttaka eða þröskuldur í sambandi við slíkar undirskriftir. Staðan í augnablikinu er einnig áhugaverð í því sambandi. Nú hafa, samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum, yfir 28 þús. manns verið að biðja um þennan rétt til þjóðarinnar, að taka afstöðu til þess hvort slíta eigi viðræðum við Evrópusambandið eða halda þeim áfram. Það liggur nálægt því að vera 11–12% kosningarbærra manna í landinu. Er það nóg? Er það ekki orðin það sterk krafa frá kjósendum að við henni ætti að verða? Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hv. þingmanns til þess.