143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sjálfur hafa hlutfallið mjög lágt. Ég geri mér grein fyrir því að ég er líklega meðal þeirra sem vilja hafa hlutfallið sem lægst. Í Sviss er það tvíþætt, annars vegar hefur þjóðin málskotsrétt. Fólk getur greitt atkvæði um lög sem þingið samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf að safna undirskriftum innan 100 daga. Þá er hægt að fá mál sem þingið samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er föst tala, ég held það sé í dag 0,7% þjóðarinnar. Ég held að Svisslendingar séu 9 milljónir, ég man það ekki. Ef þetta væru Íslendingar, hversu margir væru þetta þá? Þeir geta reiknað það út sem hafa reiknivél fyrir framan sig. Svo veltur þetta á því hvernig á að gera þetta. Er hægt að gera þetta rafrænt? Er það auðveldara? Er hægt að gera þetta í gegnum Íslykilinn eða eitthvað? Þá er það auðveldara, þá er hægt að hafa hlutfallið hærra.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að við ættum að spyrja þjóðina. Við ættum að spyrja þjóðina að því hversu há prósentan ætti að vera. Ekki leggja upp með of lága prósentutölu, ekki leggja upp með 10% og svo 15% og 20%, bjóða upp á lægri hlutfallstölur líka. En ég held að þjóðin ætti að svara þessari spurningu.