143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það væri gott að þingið gæti líka kallað eftir þessu. Í danska þinginu held ég að 1/3 geti skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir bara að það þarf að vanda betur vinnubrögðin á þinginu og ná meiri samstöðu um mál því að annars eru líkur á því að minni hlutinn vísi málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held bara að það hafi ekki gerst að málum hafi verið vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu en að möguleikinn sé til staðar þýðir að menn þurfa að vanda betur vinnuna.

Fram kemur í skýrslu McKinsey um Ísland að ein af ástæðunum fyrir því að erlendir fjárfestar horfi síður hingað, fyrir utan höftin og allt það, sé óstöðugleiki í stjórnmálum. Það er engin langtímastefna og ef þingið gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi það þýða meiri samstöðu, það mundi þýða að menn mundu í meira mæli þurfa að koma sér saman um einhverja langtímastefnu í málunum. Það væri gott.