143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Núverandi stjórnvöld hafa látið að því liggja að þau mundu ekki treysta sér til að framkvæma vilja þjóðarinnar. Ef niðurstaðan yrði sú í þjóðaratkvæðagreiðslu að menn vildu ljúka viðræðunum hafa menn gefið skýrt til kynna að þeir treysti sér ekki til að fylgja vilja þjóðarinnar. Þá erum við auðvitað komin í ansi mikla klemmu.

Síðasta ríkisstjórn treysti sér til þess að fara í gegnum þá verkferla sem fylgja aðildarumsókn þó að annar stjórnarflokkurinn væri ekki hlynntur aðild, hún vildi láta reyna á hvað kæmi út úr því og bera undir þjóðina hvort um væri að ræða eitthvað sem menn vildu samþykkja eða ekki.

En hvað telur hv. þingmaður með ríkisstjórn sem ekki vill hlýða vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað væri hægt að gera með slíka niðurstöðu?