143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er vandi á að halda hvernig eigi að haga umræðum þegar svona langt er áliðið kvölds, langur dagur að baki og stór orð hafa fallið. Ég hef ákveðna samúð með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og því að hann sé ekki fullur tilhlökkunar að hefja efnisumræðu um málið að ganga í miðnætti þegar haft er í huga að það eru engar nauðir sem reka okkur til langvinnra fundahalda. Það er hvort sem er ekki þannig að málinu ljúki í kvöld. Það verður rætt á morgun, líklega ekkert mjög lengi á morgun og er þá ekki full ástæða til þess að láta nú nótt sem nemur og halda áfram á morgun? Ég er viss um að það mun greiða fyrir umræðum um málið á morgun ef það kemur endurskoðuð tillaga hæstv. utanríkisráðherra, ég tala nú ekki um sú afsökunarbeiðni sem við höfum óskað eftir að fylgi þeirri endurskoðuðu tillögu, og það sé öllum til góðs að við bíðum til morguns.