143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við að ræða þá tillögu líka vegna þess að í greinargerð með tillögunni er beinlínis vísað til skýrslunnar sem við ræðum hér þannig að hún liggur til grundvallar tillögunni. Það er því ekkert óeðlilegt að þingmenn ræði bæði málin saman að vissu marki. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti hafi gengið út frá því þegar hann tók ákvörðun um að setja þingsályktunartillöguna á dagskrá. Það skal því ekki koma mönnum á óvart að þessi mál séu rædd saman, það er á grundvelli þess að ef tillagan mun taka breytingum mun það hafa mikil áhrif á umræðuna um skýrsluna. Það er þess vegna sem sú ósk er borin fram að við fáum að bíða eftir því að sjá hvaða breytingar verða gerðar á greinargerðinni sem hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað.

Ég lagði fram fyrirspurn og óskir um gögn og upplýsingar til forsætisnefndar í dag. Ég vil spyrja hæstv. forseta (Forseti hringir.) hvenær ég fái svar við fyrirspurn minni.