143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kannski missti af einhverju en er ekki rétt að við erum að ræða skýrsluna um Evrópusambandið? Það er þá væntanlega einhver misskilningur þegar menn biðja um að prentað sé upp annað mál til að fara að ræða það því að við erum ekki að ræða það. Ég skil ekki alveg hvað hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var að segja, hvort menn eigi ekki að slaka á. Ég verð ekki var við annað en að hér séu allir alveg slakir og vel tilbúnir til að taka góða umræðu. Það er bara þannig að maður getur varla beðið eftir því að fá að heyra ræður þeirra hv. þingmanna sem eru á mælendaskrá. Nú er virðulegur forseti búinn að segja okkur að við fáum ekki að vera lengur hérna en í þrjú korter í viðbót þannig að ég vonast til þess að við getum fengið að heyra í þeim hv. þingmönnum sem hafa undirbúið sig vel og verða örugglega með mjög athyglisverðar ræður.