143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að þessi umræða væri hvorki skemmtileg né uppbyggileg. Ég ætla að fallast á hið fyrra en leyfa mér að mótmæla harðlega hinu síðara. Ég tel að þetta hafi verið mjög uppbyggileg umræða, hér hafi menn bæði iðrast og fyrirgefið og það er fallegt og það veit ég að ég og hv. þm. Geir Jón Þórisson, hávaxnasti þingmaður þingsögunnar, erum örugglega sammála. Þetta tvennt fylgist að og það er gott að það komi fram í þessum þingsölum.

Svo af því að mér finnast þingmenn vera frekar þreyttir og framlágir þá vil ég segja að ég kem hér aðallega til að hrósa hæstv. forseta og forsetum sem ég tel að hafi greitt mjög fyrir þingstörfum með sáttfýsi sinni hér í kvöld Ég veit að það kemur hæstv. forseta á óvart að ég, sem hef jafnan talið að enginn komist til þroska sem alþingismaður nema sjá dag rísa út um glugga þinghússins, tek eigi að síður undir það að menn ættu kannski að láta staðar numið núna. Ástæðan er kannski sú að þetta hefur verið svo dramatískt kvöld að jafn viðkvæmur maður og ég þarf nóttina til að jafna sig.