143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að ég tel best að við ljúkum þessari umræðu hér í kvöld. Það er um svo margt að ræða við ríkisstjórnina og við forseta um framgang þessa máls að það væri að æra óstöðugan að rifja það allt upp. Við höfum verið svo meðfærileg og sáttfús, stjórnarandstaðan, í dag að því má helst líkja við hina frægu líkingu úr ljóði Majakovskís að við séum eins og ský í buxum.

Við höfum til dæmis ekki gengið ríkt eftir því við forseta hvað verði um afgreiðslu skýrslunnar í utanríkismálanefnd. Við höfum ekki fengið skýr svör um það með hvaða hætti álit verður unnið í utanríkismálanefnd og hvort það komi ekki örugglega aftur hingað inn þannig að við getum treyst því að einhver efnisleg vinnsla verði með skýrsluna; og það skiptir auðvitað efnislega máli fyrir okkur að fá að sjá tillöguna sem hæstv. utanríkisráðherra vill flytja.

Af hverju skiptir hún máli? spurði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hér áðan. Hún skiptir máli vegna þess að henni er dembt á án nokkurra skýringa. Það er ekki bráð hætta af innlimun Íslands í Evrópusambandið á næstu vikum og það eru engin efnisleg rök fyrir því að halda næturfundi um þetta mál þegar ríkisstjórnin er svo verklaus sem raun ber vitni að öðru leyti.