143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram, að mörgu leyti líka um fundarstjórn forseta, hefur þó skilað þeim árangri að til stendur að gera breytingar á greinargerð með þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra þar sem tekin verða út brigslyrði um stjórnarskrárbrot á síðasta þingi. Það er mikilvægt.

Einnig hefur sá árangur náðst hér í kvöld að hæstv. utanríkisráðherra bað hv. þm. Steingrím J. Sigfússon afsökunar á ummælum sínum héðan úr sal og er maður að meiri fyrir vikið. Það er ljóst að umræðan skilar árangri en ég held að enginn geti deilt um það að hún hefur tekið eðlisbreytingu í ljósi þess að tillögu til þingsályktunar frá hæstv. utanríkisráðherra var dreift hér sl. föstudag. Það hefði auðvitað verið heppilegt, og það er það sem við höfum bent hér á í kvöld og í dag og í gær, ef menn hefðu lokið umræðu um skýrsluna fyrst. Það var það sem ég var að reyna að segja hér áðan og vona að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nái í þetta skiptið.