143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mikið hefur gengið á í kringum verklagið sem hér hefur verið viðhaft. Það hefur valdið því að þúsundir manna og kvenna hafa séð ástæðu til að fylla Austurvöll tvo daga í röð og ég leyfi mér að fullyrða að það eru kjósendur allra flokka sem hafa komið til að mótmæla.

Við í minni hlutanum höfum mótmælt því að skýrsla sem unnin var til að tekin væri ákvörðun um áframhald í Evrópumálum hefur að engu verið gerð. Þegar umræða um hana var rétt hafin var lögð fram þingsályktunartillaga með orðalagi, svo að ég tali ekki um tillöguna sjálfa, sem vegur að heiðri þingmanna og brigslar þeim um stjórnarskrárbrot. Í ljósi þessa fer ég fram á að málinu verði frestað og fundi slitið og fundur verði ekki settur fyrr en búið er að koma friði á og forseti búinn að funda með þingflokksformönnum.