143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt og forseti setur klukkuna af stað vildi ég inna forseta eftir því hvort hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru viðstaddir, eru í salnum og geta komið til umræðunnar, því að ég hef áhuga á því að eiga við þá orðastað.

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherrar sem hv. þingmaður nefndi eru hvorugur í húsi.)

Þá óska ég eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni þangað til þeir eru komnir til þings. Ég get staðið hér í ræðustólnum ef klukkan er stöðvuð eða tekið mér sæti í salnum á nýjan leik. Ég óska eftir því að þessir hæstv. ráðherrar komi og verði hér til svara fyrir stórmál af þessu tagi eins og löng þingvenja stendur til, að formenn stjórnmálaflokka og ráðherrar sem fara með lykilráðuneyti komi að ósk þingmanna til umræðna á þingi um mikilsverð mál.

(Forseti (EKG): Eins og hv. þingmanni er ljóst þá hefur forseti lítil ráð með að kalla út hæstv. ráðherra með svo skömmum fyrirvara á þessum tíma. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra sem er framsögumaður málsins er auðvitað hér til staðar.)

Það kann nú að vera að ég hafi ekkert síður áhuga á því að eiga orðastað við aðra ráðherra á þessu kvöldi en hæstv. utanríkisráðherra. Ég hef fullan rétt til þess sem þingmaður, eins og forseti veit vel að er þingvenja hér, að óska eftir því að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna komi og verði til svara í stórmáli af þessu tagi nema þeir hafi lögmæt forföll. Einhvers staðar stendur það í lögum að þingmenn, en þessir ráðherrar eru jafnframt þingmenn, eigi að sinna þingskyldum eins og aðrir þingmenn. Er það ekki þannig að menn eigi að mæta hér á fundum Alþingis?