143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[15:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku bar ég upp undir þessum dagskrárlið kvörtun mína vegna svars innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn frá okkur hv. þm. Merði Árnasyni um gögn um hælisleitendur. Svar frá innanríkisráðuneytinu var að þar sem málið væri til opinberrar rannsóknar teldi ráðuneytið að það þyrfti ekki að svara þessu bréfi.

Ég var ósammála því og nefndi sérstaklega 3. og 4. lið sem varða óháða rannsókn ráðuneytisins sjálfs og rekstrarfélagsins. Forseti á fundarstóli tók því vel að málið yrði skoðað í forsætisnefnd. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort það hafi verið gert og hvort forsætisnefnd finnist það virðing við þingið að svara svona, að vísa þessu í rauninni frá.