143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þessi tillaga komist á dagskrá því að ef það á að vera raunhæfur möguleiki að greiða atkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum verður að ákveða það í þessari viku.

Hugtakið „ómöguleiki“ er vinsælt og mikið keypt þessa dagana í almennri umræðu. Þegar formenn stjórnarflokkanna voru að því spurðir í Fréttablaðinu 24. apríl sl., hvernig þeim litist á að þurfa að stjórna aðildarferli, vitandi það að allar líkur væru á að þeir fengju meiri hluta á þingi, sögðu þeir báðir að þar væru engir vankantar á. Engir. Hæstv. fjármálaráðherra sagði aðspurður þá:

„Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn. En við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.“

Aðspurður um hvernig honum litist á að stjórna landinu með Framsóknarflokknum sem líka væri á móti aðild sagði hann: Við stefnum að þjóðaratkvæðagreiðslu og við munum standa við það.

Það var enginn (Forseti hringir.) ómöguleiki fyrir hendi þá. Þess vegna er enginn sómi að öðru en að þingheimur samþykki þessa tillögu núna og geri það mögulegt að standa við fyrirheit fjármálaráðherra (Forseti hringir.) þó að hann sé ekki maður til þess sjálfur.