143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim þingmönnum sem hér töluðu fyrir því á síðasta kjörtímabili að við ættum að ljúka viðræðum og fara síðan með þann samning í atkvæðagreiðslu. Þá var barið mjög hart á því að það væri eðlilegt að þjóðin fengi að ákveða hvort við værum í viðræðum eða ekki.

Við höfum tekið saman höndum um það núna að gefa þjóðinni færi á að tjá sig um framhaldið og þar með reynt að leita málamiðlunar í því hvernig við komumst út úr þeim vanda sem endurspeglast meðal annars í þeim mótmælum sem hafa verið hér undanfarna daga og eru að magnast í samfélaginu, ekki hvað síst vegna þess að núverandi stjórnarflokkar hafa gefið skýr fyrirheit, við skulum orða það bara þannig, um að þjóðin fái að greiða atkvæði um framhaldið.

Hér er verið að bjóða fram þá tillögu að við notum sveitarstjórnarkosningarnar, spörum okkur þar 200–300 milljónir, og látum afgreiða þetta mál þar. Þá fær þjóðin tækifæri til að tala og við getum í framhaldi höndlað með þann styrka þjóðarvilja (Forseti hringir.) á bak við okkur. Ég treysti því að þetta mál komi fyrst á dagskrá hér á eftir.