143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggur dagskrártillaga um að taka til umræðu þá þingsályktunartillögu sem Píratar, Björt framtíð og Samfylkingin hafa lagt fram um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum. Atkvæðagreiðslan hér og nú snýst um það hvort menn vilja láta þessa tillögu koma nú til umræðu þannig að hún geti fengið afgreiðslu af því að hún er bundin tímamörkum af kunnuglegum ástæðum.

Mér finnst sjálfsagt að það sé gert alveg burt séð frá því hvaða afstöðu menn hafa til efnis tillögunnar sjálfrar. Þingheimur getur þá greitt atkvæði um hana. En það virðist sem meiri hluti þingsins, stjórnarflokkarnir, vilji ekki bara synja þjóðinni um að taka afstöðu og greiða atkvæði um framhald viðræðna við Evrópusambandið heldur eigi líka að koma í veg fyrir að þingheimur greiði atkvæði um þá tillögu sem hér liggur fyrir. Það er útilokað að greiða atkvæði um hana eftir að fresturinn rennur út í vikulokin samkvæmt lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hvet þingmenn til að heimila það að málið komi hér til umræðu núna (Forseti hringir.) og menn geti síðan tekið afstöðu til þeirrar tillögu fyrir vikulokin.