143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki að undra þótt hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins flissi vandræðalega og hæstv. ráðherrar sitji á bekkjunum rjóðir í kinnum. Framsóknarflokkurinn er búinn að tuska þá þannig til að það stórsér á þeim. Það er ástæða til að óska hæstv. forsætisráðherra sérstaklega til hamingju með daginn. Hann er búinn að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn meira en ég man að hafi nokkru sinni verið gert.

Hæstv. forsætisráðherra hefur svínbeygt formann Sjálfstæðisflokksins með þeim hætti að sá góði drengur treysti sér ekki til að standa við þau orð sem hann gaf flokksmönnum og þjóðinni fyrir kosningar, sem hann endurtók á kjördag og síðan aftur eftir kosningarnar. Það er ótrúlegt. Þessum tökum hefur Sjálfstæðisflokkurinn náð á forustu Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn.)(Gripið fram í: Á sjálfum sér?) Mér er raun að því og ég vil alla vega í anda góðra skáta gera mitt til þess að hjálpa hæstv. fjármálaráðherra upp úr því dýki sem hann er sokkinn í upp að öxlum. Það er þess vegna sem ég styð þessa tillögu.