143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að draga það fram vegna orða hæstv. fjármálaráðherra að þegar við komum til þings var lofað að hér mundi fara fram umræða um skýrslu frá Hagfræðistofnun, leggja átti skýrsluna fyrir þingið og síðan átti að ræða málið og taka ákvarðanir. Þessi skýrsla átti að vera tilbúin um áramót eða í janúar. Hún kemur allt of seint fram. Því hefur líka verið lofað að ekki verði tekin ákvörðun um framhaldið nema með atkvæðagreiðslu. Við erum allt í einu komin í tímaþröng miðað við regluna að efna verði til þjóðaratkvæðagreiðslu með þriggja mánaða fyrirvara. Verið að óska eftir því að við fáum þessa dagskrártillögu hér upp þannig að við getum afgreitt málið fljótt og vel á næstu dögum. Á meðan atkvæðagreiðsla er undirbúin er hægt að fara yfir skýrslu Hagfræðistofnunar, í millitíðinni mun skýrsla Alþjóðamálastofnunar koma. Við fáum nægan tíma til þess að ræða málið og upplýsa þjóðina, eins og talað var um í ræðu (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra, þannig að menn geti tekið málefnalega afstöðu til málsins samhliða sveitarstjórnarkosningunum.