143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson var að velta því fyrir sér áðan hvers vegna þessi þingsályktunartillaga um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara sveitarstjórnarkosningum komi fram svona seint út af þessari tímapressu, fresturinn rennur út á föstudaginn. Ástæðan er sú að þetta eru náttúrlega bara viðbrögð við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem var lögð fram á föstudaginn um að slíta viðræðum. Ef viðræðum er slitið er ekki hægt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður, þá mundi það heita að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka upp aðildarviðræður aftur. En það er bara allt annar handleggur. Þetta er tillaga um að áður en viðræðum er slitið fái þjóðin fái að segja sitt, vill hún halda aðildarviðræðunum áfram. Það er ástæðan fyrir því að þingsályktunartillagan kemur fram svona seint. Við erum að biðja um að dagskránni verði breytt þannig að tillaga okkar geti komið strax á dagskrá út af því að hún getur brunnið inni, ekki hin málin.