143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa fallið mörg orð um að ríkisstjórnin sé að svíkja kosningaloforð og þessi tillaga sé að brenna inni vegna þess að verið sé að bíða eftir ákvörðunum frá ríkisstjórninni um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og þessi tillaga komin fram svo seint. Það voru kosningar 27. apríl. (Gripið fram í.) Ríkisstjórn var mynduð á tæpum mánuði. 11. júní í fyrra eftir alþingiskosningar lögðu eftirfarandi hv. þingmenn fram þingsályktunartillögu þess efnis að fara fram með atkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Virðulegi forseti. Þingmennirnir voru: Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson og Kristján L. Möller.

Virðulegi forseti. Allt sem sagt hefur verið hér um þessa atkvæðagreiðslu í dag er fyrirsláttur. Þess vegna vísa ég því á bug að um einhvern tímaskort sé að ræða (Forseti hringir.) hjá stjórnarandstöðunni.