143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[16:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nú svo að eitt af meginmarkmiðum með þingstörfum er að leiða þingviljann í ljós, eins og það er kallað. Til þess að það gerist þurfa mál að komast á dagskrá og til atkvæða. (Gripið fram í.) Þannig háttar til með þetta mál að það tapar gildi sínu innan fárra daga ef það fær ekki a.m.k. að komast hér á dagskrá til umræðu þannig að það skýrist hvort er við það stuðningur eða ekki. Sé hann ekki til staðar, ef meiri hlutinn er andvígur tillögu af þessu tagi, fellir hann tillöguna. Þar með liggur niðurstaða Alþingis fyrir. Það er lýðræðislegt.

Það er hjáleið fram hjá lýðræðinu að neita að taka á dagskrá tillögu af þessu tagi. Mér finnst það sjálfsagt mál að hún komist strax á dagskrá aðstæðnanna vegna (Gripið fram í.)og fái hér umfjöllun þannig að við fáum á hreint þingviljann gagnvart því hvort (Forseti hringir.) stuðningur er við að nota tækifærið með sveitarstjórnarkosningunum til svona kosninga eða ekki.