143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[16:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég mun greiða atkvæði með þeirri tillögu um að breyta dagskránni sem ég lagði fram, að sjálfsögðu. Það er rétt sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson segir, í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem voru samþykkt 2010 var upprunalega talað um að það mætti fara í slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða sveitarstjórnarkosningum. Það var tekið út 2011 og stendur enn þá þannig. Ég hef því lagt fram breytingartillögu við þau lög sem segja að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 4. gr. skal fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið samhliða sveitarstjórnarkosningum 31. maí 2014.“

Þetta stöðvar ekki. Ég hef fengið staðfest frá starfsmönnum þingsins að þetta er þingtækt. Það er hægt að fara að ræða þingsályktunartillöguna um þjóðaratkvæðagreiðsluna, það er ekkert lagatæknilegt sem stöðvar okkur í málinu.