143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dagskrártillaga.

[16:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu. Þjóðin er með sterkt ákall um að fá að koma að þessari ákvörðunartöku og ég tel að við eigum að verða við því. Ég tel líka að þetta mál sé of stórt fyrir Alþingi en passi akkúrat í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er ein af þeim sem í einfeldni sinni trúðu því að eitthvað væri að marka hina frjálslyndu víðsýnu ásjónu sem Sjálfstæðisflokkurinn tók upp fyrir síðustu kosningar. Ég hélt líka að það væri eitthvað að marka þann vilja sem kom fram í orðum hv. formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, og sömuleiðis að það væri eitthvað að marka það sem Sjálfstæðisflokkurinn skrifaði á sína pappíra í sinni útgáfu í aðdraganda kosninga. Ég segi hér enn og aftur að það voru mér mikil vonbrigði rétt áðan að heyra hláturinn í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og svo núna staðfest með orðum hæstv. fjármálaráðherra að útgáfa Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga sé minna virði en litli, þunni, ódýri pappírinn sem við setjum upp á rúllurnar (Forseti hringir.) og notum á hverjum einasta degi, miklu minna virði. Ég vona að ég hafi gætt hófs í orðavali. (Gripið fram í: … málefnalegri.)