143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í boði hefur verið af hálfu stjórnarandstöðu samtal við ríkisstjórnina um það með hvaða hætti væri hægt að halda þingstörfum áfram í kvöld. Það er engin ástæða til að greiða hér atkvæði um lengd þingfunda. Við sjáum hins vegar að ríkisstjórnarmeirihlutinn óttast mjög að fólkið í landinu fái tækifæri til að melta þau tíðindi sem orðið hafa. Menn vilja reyna að moka þessum málum öllum í gegn í miklum flýti án nokkurrar sýnilegrar ástæðu vegna þess að menn óttast að þeir haldi ekki utan um þingmeirihlutann, þeir óttast að þingmenn sjái hversu óskynsamlegt það er að ganga hér gegn hagsmunum atvinnulífsins, hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar, bíða ekki eftir öðrum skýrslum og öðrum greiningum.

Þess vegna er það núna leitt í ljós eftir að við buðum það í dag að það yrði eitthvert samkomulag um framhaldið, að það er enginn samkomulagsvilji hjá stjórnarflokkunum um nokkurt skikk í meðferð þessara mála og því er einfalt af okkar hálfu að við verðum að greiða atkvæði gegn tillögum um framlengdan þingfund í kvöld.