143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það eru vonbrigði að ekki skuli reynt að ná samkomulagi um fyrirkomulag þingfundar í þessu máli og ramma inn umræðuna vegna þess að augljóst er að það fer betur á því fyrir hæstv. utanríkisráðherra að mæla fyrir þingsályktunartillögu sinni á morgun.

Ég held hins vegar að það sé fullt tilefni til þess í ljósi þeirra mótmæla sem komið hafa frá aðilum vinnumarkaðarins, frá Samtökum iðnaðarins, frá stórum fyrirtækjum á borð við CCP, Marel, Össur, í ljósi þeirra miklu áhyggna sem þau þúsund manneskja lýsa sem komið hafa saman fyrir utan þinghúsið á hverjum degi núna undanfarið, að menn setjist niður í forustu stjórnmálaflokkanna ásamt aðilum vinnumarkaðarins og reyni að finna lausn á þessu máli sem allir geti unað við frekar en ljúka því í því mikla ósætti sem um það er.