143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það hér upp við hv. samþingmenn mína hvernig við getum komið umkvörtunarefnum okkar á framfæri innan þingsins og fengið einhver svör við þeim.

Ég lagði í gær fram óskir til hv. forsætisnefndar um að hæstv. utanríkisráðherra væri látinn leggja á borð fyrir okkur þau gögn sem hann eða utanríkisráðuneytið vísar í í þingsályktunartillögunni sem nú er á dagskrá, um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þar segir að samkvæmt gögnum og yfirlýsingum og öðru sé tillöguflytjanda ljóst að hér hafi ekki verið raunverulegur meiri hluti þegar atkvæði voru greidd um aðild að Evrópusambandinu árið 2009. Ég óskaði eftir því að forsætisnefnd færi þess á leit að við fengjum þessi gögn og þessar upplýsingar svo að við sætum ekki öll undir grun.

Það dugar ekki að hæstv. ráðherra skammist sín fyrir orð sín og taki þau bara út vegna þess að eftir lifa þau engu að síður. Hann hefur ekki beðist afsökunar á þeim þannig að hann hlýtur að standa við þau að því leyti að það eina sem hann sagði hér í ræðustóli í gær var að ef það flýtti mögulega eitthvað fyrir þingstörfum þá gæti hann tekið þetta út, svona til að liðka fyrir, en það var engin iðrun í orðum hans. Hann virðist ætla að standa við þetta. Hæstv. forsætisráðherra sagði mér síðan í gær að hann væri búinn að úrskurða í málinu og úrskurðurinn fælist í því að utanríkisráðherra ætti sjálfur að ákveða hvernig tekið yrði á því.

Því hef ég ákveðið að leggja þessa sömu fyrirspurn fram til skriflegs svars til utanríkisráðherra svo að þetta komi fram með einum eða öðrum hætti. Mér finnst að við þingmenn eigum að ræða það dálítið hér með hvaða hætti umkvörtunarefnum okkar er komið á framfæri og með hvaða hætti er tekið á þeim.