143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:41]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Á síðustu rúmum tveimur, þremur sólarhringum kvöddu þingmenn stjórnarandstöðunnar sér hljóðs alls 292 sinnum undir liðnum um fundarstjórn forseta í tengslum við ESB-málin. Samanlagður ræðutími var alls 321 mínúta. Því er varla trúandi að fundarstjórn hæstv. forseta sé svo slæm sem þessar tölur bera með sér. Líklega er skýringarinnar að leita annars staðar og staðan í keppninni „Hver talar lengst en ekki endilega best“ var sú í gærkvöldi að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafði talað lengst, 16 mínútur, 16 ræður, en skammt undan voru hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason. Það getur verið að sú röð hafi breyst aðeins núna áðan vegna þess að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom mjög sterk inn. (Gripið fram í.) Svo getur vel verið að hún sé komin upp að hlið Katrínar, sem reyndar kom líka mjög sterk inn.

Samkvæmt þingsköpum má hver þingmaður koma upp tvisvar sinnum eina mínútu til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Gera verður þá lágmarkskröfu til þingmanna að þeir nýti þennan tíma til að ræða um það sem á að ræða um, fundarstjórn forseta, en nýti hann ekki í öðrum tilgangi. Ef það er gert kerfisbundið er óhjákvæmilegt að gera breytingar á þingsköpum eða a.m.k. er fáránlegt að kalla þennan lið fundarstjórn forseta.

Eitt stærsta vandamál þingsins er vantraust, vantraust almennings sem er löngu búinn að fá nóg af innantómu pexi þingmanna. Það er alltaf stutt í málþófið og það er til skammar. Megum við búast við að þingmenn komi upp 292 sinnum til viðbótar í dag og á morgun til að ræða um fundarstjórn forseta? Það er ekki ólíklegt. En ég ætla að nota tækifærið til að hvetja þá fjölmiðlamenn sem fylgjast með umræðunum til að hlusta á þær ræður næstu sólarhringana sem eru fluttar undir liðnum um fundarstjórn forseta og birta síðan upplýsingar um hversu margar þeirra fjalla í raun um þann lið. Það væri þarft og gott innlegg í umræðuna um þann fundakúltúr sem er hér í óþökk þjóðarinnar.