143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vitum að ferðamannastraumur til Íslands hefur aukist gríðarlega og mikill átroðningur hefur verið á náttúru landsins samfara því. Núverandi stjórnvöld skáru mjög mikið niður í fjárlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og til Landverndar vegna friðlanda og þjóðgarða.

Nú er meiningin að taka upp ferðamannapassa og engin nánari útfærsla er komin á því. Inn í þetta tómarúm stökkva landeigendur og ætla sér að fara að rukka inn á vinsæla ferðamannastaði. Við þekkjum hvernig þetta er við Kerið í Grímsnesi þar sem menn eru byrjaðir að rukka inn og uppi eru hugmyndir um að rukka inn við Geysi í Haukadal og landeigendur nálægt Dettifossi í Reykjahlíð boða að þeir muni fara að rukka þá sem fara um það svæði. Þetta boðar ekki gott og stefnir í algert ófremdarástand sem ég tel að stjórnvöld verði að stöðva og sýna fram á að þau ætli að hafa stjórn á þessum málum með einhverjum hætti, t.d. með komugjaldi inn í landið sem yrði þá nýtt til þess að byggja upp ferðamannastaði og fara í þjóðgarða og vernduð svæði eins og hugmyndir eru uppi um. Stjórnvöld verða að sýna frumkvæði núna því að það er ekki hægt að líða slíkt ófremdarástand.

Við skulum muna að það er í gildi almannaréttur í landinu sem leyfir frjálsa för um óræktað land. Við getum ekki látið einkaaðila komast upp með það að rukka inn á svæði sem eru í nágrenni við landareignir þeirra til að hægt sé að komast að náttúru Íslands.

Nú reynir á stjórnvöld hvort þau eru í stakk búin til að sinna því hlutverki að gæta réttar almennings og líka að verja náttúru Íslands. Hún á ekki marga málsvara (Forseti hringir.) og allra síst hjá þessari ríkisstjórn, því miður.