143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar undir þessum lið að ræða störf þingsins. Þegar nýtt þing kom saman í vor töluðu margir um að ný umræðuhefð ætti að skapast hér. Mér finnst ekki bóla mikið á henni. Við stjórnarliðar höfum meðal annars verið kallaðir hryggleysingjar, lindýr og það af fólki sem var kosið út á það að lofa minna veseni.

Við höfum líka verið ásakaðir um að vera í sambandi við gamla Stalín og við höfum setið undir aðdróttunum um að hafa lekið skýrslum, trúnaðarmálum, sem mér finnst sárt að sitja undir. Gamalkunnir taktar sem náðu hámarki, eða lágmarki, í gærkvöldi. Menn hrúgast á mælendaskrá en kvarta svo yfir löngum þingfundum. Tími manna hér er, eins og kom fram til dæmis áðan og í gærkvöldi, mjög illa nýttur.

Að því sögðu eru þau þingmál sem nú eru til meðferðar flókin og þurfa mikla umræðu. Mörg stór mál eiga eftir að koma fram sem þurfa mikla umfjöllun, þar á meðal 4. liður á dagskránni sem liggur fyrir í dag. Þess vegna er ég þakklátur hæstv. forseta fyrir að boða til kvöldfundar í köld og ég vona að hann standi lengi. Ég skora jafnframt á forseta að til að tryggja jafn vandaða meðferð og þau brýnu mál fá sem við fjöllum um núna þá legg ég til við hæstv. forseta að fundað verði fram eftir nóttu og á morgun ef þarf og á föstudag og laugardag. Og ef ekki verður hægt að afgreiða mál til nefndar eins og stendur til fyrir nefndadaga þá legg ég til að þeim verði annaðhvort fækkað eða nefndavikan stytt. En ég hvet hv. þingmenn til að nýta tímann til þingstarfa og þá getum við öll náð árangri saman.