143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:55]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða aðeins þá stöðu sem uppi er varðandi snjóalög og ófærð á Norðurlandi og Austurlandi og þá aðstöðu sem menn búa við í samgöngum þar sem Austfirðingar þurfa t.d. að fara í gegnum fjögurra metra hátt stál snjóa til að komast upp úr fjörðum sínum, en ég ætla að geyma það vegna þess að okkur hafa borist afar ánægjuleg tíðindi úr norðausturfjórðungi.

Í Morgunblaðinu í dag er gerð grein fyrir því að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hafi fallist á það að ríkissjóður og Norðurþing veiti fé til uppbyggingu iðnaðarhafnar. Þetta er stór áfangi í atvinnusögu Húsvíkinga og þetta er stór áfangi fyrir alla Norðlendinga og mun hafa áhrif um allt Norðurland, vænti ég, a.m.k. austurhluta þess og jafnvel austur á land, ég tala nú ekki um þegar Vaðlaheiðargöngin verða komin í gagnið sem munu þýða mun betri samgöngur og auðveldari tilflutning á vinnuafli á milli staða. Eins og staðan er og ef þetta verkefni kemst endanlega í höfn, við erum auðvitað ekki búin að fá algerlega grænt ljós á þetta, það á eftir að gera m.a. raforkusamninga, mun það þýða 120 störf til viðbótar á Húsavík og í nágrenni. Það mun þýða verulega uppbyggingu í því bæjarfélagi með margfeldisáhrifum út í samfélagið, samfélagsþjónustuna og þá aðstöðu sem menn búa við á þessu svæði og þar var komin full þörf á.