143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[17:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að eiga orðastað við hv. 2. varaformann atvinnuveganefndar, Harald Benediktsson. Tilefnið er forsíðufrétt Fréttablaðsins sem hljóðar svo: Gagnrýna tollahóp landbúnaðarráðherra.

Forsaga málsins er sú að innflutningsaðilar hafa gagnrýnt úthlutun á innflutningskvótum og uppi hafa verið eðlilegar kröfur um afnám tolla eða aukið framboð á tollkvótum vegna vara sem lítið eða jafnvel ekki eru framleiddar hér á landi.

Hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra brást við þessari gagnrýni og sagði að í ljósi þeirrar reynslu sem nú liggur fyrir um framkvæmd löggjafarinnar og þeirra álitaefna sem hefðu komið upp ætlaði hann að skoða hvort tilefni væri til að sett yrði hámark á markaðsráðandi aðila við úthlutun tollkvóta og að hann boðaði jafnframt vinnuhóp eða nefnd um málið.

Nú hefur nefndin verið skipuð og það er þrennt sem ég hef við það að athuga af lestri fréttarinnar. Í þeim hópi er bara verið að ræða um útflutning búvara en ekki innflutning. Þá kemur fram að Neytendasamtökin, fulltrúar neytenda, eiga ekki sæti í þeim hópi og Samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt að Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólkursamsalan sem sé í raun sami aðili hafi þarna sinn hvorn fulltrúann. Út frá sjónarmiðum neytenda og út frá sjónarmiðum samkeppni og viðskiptafrelsis vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann muni beita sér fyrir því á vettvangi atvinnuveganefndar að fá ráðherra til að skýra nánar hvað hann ætlist fyrir.