143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[17:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstrarvanda og reiknilíkan framhaldsskólanna eru settar fram ábendingar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að ráðuneytið bregðist tafarlaust við bágri rekstrarstöðu framhaldsskólanna og stuðli með skýrri stefnu og forgangsröðun að auknu samræmi milli fjárveitinga og þeirrar þjónustu sem skólarnir eiga að veita.

Í viðbrögðum ráðuneytisins við þessu segir að fjárveitingar til framhaldsskóla hafi lækkað frá hruni til að mæta hagræðingarkröfum og að skólarnir hafi gripið til ráðstafana í samræmi við það. Umfang skólastarfsins hafi hins vegar ekki dregist saman í sama mæli vegna hlutverks skólanna í tengslum við viðbrögð stjórnvalda við atvinnuleysi ungmenna. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að frekari lækkun á rekstrarkostnaði kallar á kerfisbreytingar. Nú er unnið að stefnumörkun í menntamálum þar sem m.a. á að taka á kerfisbreytingu í framhaldsskólum, einkum að því er varðar námsframvindu.“

Virðulegi forseti. Ég les það út úr svari ráðuneytisins að til standi að fara í frekari lækkun á rekstrarkostnaði framhaldsskólanna og því séu kerfisbreytingar nauðsynlegar. Af þessu hef ég áhyggjur vegna þess að ég tel í fyrsta lagi farsælast að fara í kerfisbreytingar í framhaldsskólunum út frá hagsmunum nemenda og samkeppnishæfni þeirra við erlenda jafnaldra sína frekar en að útgangspunkturinn sé rekstrarkostnaður; í öðru lagi vegna þess að ef stytta á nám í framhaldsskólum mun það hafa aukinn kostnað í för með sér í fyrstu …

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að ég vil að kerfisbreytingin sem ég styð verði gerð út frá hagsmunum nemenda og samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum jafnöldrum sínum og í öðru lagi vegna þess að ef stytta á nám í framhaldsskólunum hefur það kostnað í för með sér í fyrstu einmitt á þeim tíma (Forseti hringir.) sem gert er ráð fyrir veikri (Forseti hringir.) stöðu ríkissjóðs samkvæmt áætlun stjórnvalda.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu um málið og vænti þess að hún verði sett á dagskrá fljótlega.