143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[17:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið á þessum degi hér á Alþingi til að gera það að umtalsefni, um leið og ég fagna því alveg sérstaklega, sem birtist okkur í fréttum í dag um að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi í dag fallist á þá fyrirætlun ríkissjóðs og Norðurþings að veita fé til uppbyggingar iðnaðarhafnar á Húsavík og hin stóra og mikla atvinnuuppbygging á Bakka við Húsavík geti þá hafist. Þetta er stórt og mikilvægt skref sem beðið hefur verið eftir og núna tekur væntanlega við að klára samning við þann aðila, þ.e. PCC, sem ætlar að reisa kísilverksmiðjuna sem áform eru um á Bakka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta atriði, sem er eitt af þeim jákvæðu góðu atriðum sem gerð voru á síðasta kjörtímabili af þáverandi stjórnarmeirihluta, það voru ekki allir sem studdu það og margir sjálfstæðismenn á móti því, að sú mikla og jákvæða uppbygging sem þar er að hefjast muni gera það að verkum að þetta svæði verður eitt mesta uppbyggingarsvæði landsins sem mun skapa mikinn hagvöxt, ekki aðeins á því svæði heldur mun það auka hagvöxt á Íslandi.

Það ásamt framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng, framkvæmdum sem ganga mjög vel núna, gerir það að verkum að við förum að sjá til sólar hvað þetta varðar. Langur og strangur ferill, sem hefur tekið langan tíma, við að nýta orku norðausturhornsins til atvinnuuppbyggingar á svæðinu gengur nú fram. Ég tók eftir því, og það deilum við ekki um, að ég og hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir erum sammála um þau atriði eins og mörg önnur. Þetta er eitt af þeim jákvæðu skrefum, eins og ég sagði áðan, sem verið er að taka ásamt öðrum framkvæmdum sem þarna eru. Af því að hv. þingmaður talaði um snjóþungan vetur og erfiðleika þá vil ég trúa því og hvetja stjórnarmeirihlutann til þess að setja næsta verkefni hvað varðar framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng á samgönguáætlun nú. Mér finnst það ekki (Forseti hringir.) til of mikils mælst að núverandi stjórnarmeirihluti komi því verki á.